góð saga

|

Saturday, September 30, 2006

ég er í vinnunni og það er ekkert að gera. ég fagna því mjög vegna þess að síðast þegar ég var hérna þá voru tuttugu manns á bið allan daginn, báða dagana. svo já, rólegheitin eru kærkomin.
annars þarf ég nú að fara að fá mér vinnu þar sem ég er ekki á kvöldin og um helgar. skólinn er alveg að taka sinn toll og það er nóg að gera. meira um það seinna..

ég er að fara í bíó í kvöld, ég og bjarni eigum frímiða sem gilda út september svo við erum tilneydd til að fara í kvöld. verst að það er ekkert í bíó, en þetta gildir bara í regnboganum og smárabíó. my super ex girlfriend kemur sterk inn en bjarninn er ekki alveg að meðtaka hana og ég held að mér eigi ekki eftir að takast að fá hana samþykkta. sjáum til..

annars er bara taumlaus gleði hér á bæ og fagna ég þessum rólegheitum enn og aftur. hef meira að segja tíma til að skrifa á veraldarvefinn.. hvaða hvaða?

eigiði góðan dag..

|

Thursday, September 28, 2006

ég sit heima hjá margréti frænku, er að passa yngstu dóttur hennar..
hversu sætt getur eitt barn orðið?

|

Thursday, September 21, 2006

ég var að skrifa mig á listann á stopp.is. kominn tími til að svona átak fari í gang. þessi dauðaslys sem hafa verið að herja á okkur undanfarið eru alveg hræðileg og það sem mér finnst svo sorglegt er að það þurfa alltaf fleiri fleiri einstaklingar að deyja til að eitthvað gerist. það þurfa alltaf margar fjölskyldur að kljást við óbærilegan sársauka til að fólk vakni og hugsi "nei, hingað og ekki lengra" átak gegn hraðakstri er svo löngu tímabært að það þarf ekki einu sinni að tala um það. í dag var lítil klausa í velvakanda frá konu sem keyrði frá reykjavík til húsavíkur og mývatns, eitthvað um ellefuhundruð kílómetra og þau sáu ekki einn lögreglubíl alla leiðina. ekki einn! hvurslags eftirlit er það? það er ekki nóg að hafa aukið eftirlit um verslunarmannahelgina, það þarf að vera stöðugt eftirlit.

núna tuttugasta og sjötta september eru liðin tuttugu ár frá því að faðir minn dó, aðeins 33 ára. það er ekki hár aldur og syrgi ég hann á hverjum degi. á hverjum degi hugsa ég um hvað líf með honum hefði verið frábært og það er eitthvað sem ég mun aldrei fá að vita nákvæmlega. ég mun aldrei fá að vita hvernig lífi hann hefði lifað ef hann hefði ekki veikst. ég mun ekki fá að hafa hann hjá mér þegar ég gifti mig eða eignast barn. hann mun aldrei fá að halda á þeim og þau aldrei að kynnast afa sínum, sem var besti maður í heimi!

systir mín lenti fyrir bíl þegar hún var þrettán ára. það var keyrt á hana þegar hún gekk yfir götu og hún var heppin að lifa það af. algjört kraftaverk, hefur mér verið sagt. hún var í mikilli lífshættu í þrjár vikur og er ekki söm í dag. hún var dúxinn í sínum árgangi fyrir slysið en í dag getur hún ekki greint sagnorð frá lýsingarorðum. hún mun aldrei geta menntað sig eins og hún hefði getað fyrir slysið eða eignast börn. ég mun ekki eignast systkinabörn eins og flestir fá að njóta.
allt í okkar lífi breyttist út af þessum tveimur atvikum. þetta er ekki eins og missa gamlan ættingja, afa eða ömmu því þetta er svo erfitt að sætta sig við. þegar amma manns eða afi deyr þá er hægt að hugga sig við svo margt, að hann eða hún hafi gifst, eignast börn og barnabörn og haft það gott í lífinu og verið hamingjusamur. þegar einstaklingur með allt lífið framundan er hrifinn burt þá verður maður svo reiður og sár. maður getur ekki sætt sig við það að einhver sem maður elskar meira en allt skuli vera farinn að eilífu.

ég er ekki að biðja um samúð eða vorkunn, mig langar bara að koma því á framfæri hvað lífið er mikil blessun. hvað við erum heppin að fá að vera hér í dag, heilbrigð, með þá sem við elskum hjá okkur.
því vil ég biðja ykkur vinir mínir að hugsa um þá sem þið elskið þegar þið sjáið hraðamælinn fara upp í níutíu innan borgarmarkanna eða þegar þið spennið ekki beltið því þetta er svo stutt leið sem þið eruð að fara. að hugsa um það hversu lítið þarf að gerast til að þið eða þeir sem þið elskið snúi ekki aftur heim. ég vil biðja ykkur að fara út í umferðina með það að leiðarljósi að komast örugg á áfangastað, ekki á sem stystum tíma.

jæja þetta er komið gott held ég.. ég veit eiginlega ekki af hverju ég skrifaði þennan pistil. ég fór bara að hugsa um þetta og fannst ég verða að koma því niður einhvers staðar.

góða nótt kæru vinir.. fariði varlega, alltaf.

|

Wednesday, September 13, 2006

það er nú meira hvað maður fær mikla þörf fyrir að tjá sig þegar maður á að vera að gera eitthvað allt annað. það sem ég á að vera að gera núna er að hljóðrita á þrettánda tug orða. kann ég það? við því er einfalt svar. nei. er ég að reyna mitt besta og virkilega að reyna að skilja þetta? já. er þetta eitthvað að ganga eða er ég að fara að falla í þessu fyrsta verkefni námskeiðsins íslensk hljóðfræði og hljóðkerfisfræði? góð spurning. ég er búin að sitja yfir þessu í tvo daga núna sem gerir þennan dag að þeim þriðja og þetta er bara ekkert að ganga. það vill reyndar svo til að lægsta einkunnin dettur út og það þýðir þá líka að ef ég stend mig illa í þessu verkefni þá verða öll hin að vera óaðfinnanleg.
ætti ég að hætta þessu röfli og halda áfram með þetta endaþarmsverkefni? já..

kveðja frá bókhlöðunni þar sem ryklyktin er með eindæmum slæm eftir sumarið..

ps. ég bætti henni lindu hér inn í tenglana til hliðar, en fyrir þá sem ekki vita þá er það er kærasta andra fannars vinar hans bjarna og einnig gömul skólasystir úr laugarnes- og laugalækjarskóla. gaman að því. hún er með kríli í maganum sem ég óska þeim báðum innilega til hamingju með og vonandi gengur allt vel. ég hef enga trú á öðru og einnig að breki, ófæddur bjarnason (fritz til að útiloka allan misskilning) og lilli litli eigi eftir að stofna myndarlegt fótboltalið í framtíðinni og að sjálfsögðu með kristínu maríu sem klappstýru númer eitt..

|

Saturday, September 09, 2006

ég mæli með að allir kíki á þessa síðu og enn frekar mæli ég með að allir sjái myndina. hún er á kvikmyndahátíðinni núna.
ég og bjarni vorum á henni núna áðan og komumst að mörgu merkilegu. til dæmis að fyrir síðustu ísöld í evrópu þá bráðnaði risastór íshella í norður ameríku þannig að það myndaðist stór gígur í henni miðri. á endanum gaf ísveggurinn sig og vatnið fossaði út í atlantshafið við suðurodda grænlands. þetta olli því að golfstraumurinn hvarf og á næstu tíu árum var evrópa orðin að einni stórri íshellu. al gore vill meina að ef grænlandsjökull bráðnar þá megum við eiga von á sömu afleiðingum. það er frekar hræðileg staðreynd fyrir okkur íslendinga meðal annarra. ég las reyndar grein um daginn í lesbókinni þar sem var sagt að það sé frekar ólíklegt að það gerist þar sem að grænlandsjökull er kúptur og rennur vatnið því undan honum í allar áttir. það myndi aldrei fossa svona út eins og þarna forðum daga í henni ameríku. þrátt fyrir það er þetta frekar óhugnaleg tilhugsun. ég myndi til dæmis ekki vilja flytja tilneydd til nýja sjálands eða ástralíu (sem samþykkir ekki kyoto sáttmálann svo ekki viljum við fara þangað) vegna yfirvofandi ísaldar eða að börnin mín eða barnabörn þyrftu að gera slíkt.
þetta voru mikið til staðreyndir sem maður hafði heyrt áður en það var mjög gaman að sjá hvernig hann setti þetta upp og sýndi dæmi um hitnun jarðar, til dæmis með myndum af dölum og gígum þar sem einu sinni voru stórar íshellur eða ár.
þetta er málefni sem varðar okkur öll og ef þið hafið ekki færi á að sjá þessa mynd á hátíðinni þá endilega sækið hana á netinu.
ég og bjarni erum að fara að selja bílinn og erum því þegar búin að stíga eitt skref í þágu jarðarinnar.

góðar stundir..

|

Tuesday, September 05, 2006

þá er bara skólinn byrjaður á fullu og mín sátt. er með afbragðsgóða stundatöflu og hef nógan tíma fyrir sjálfa mig á milli tíma (og lærdóminn jájá.. ekki má gleyma honum) ég hef samt miklar áhyggjur af því að kaffitár er þarna á svæðinu. ég drekk ekki kaffi, en kaffið frá þeim getur verið syndsamlega gott. þá er ég að tala um kaffidrykki þið vitið með sýrópi og svona útí. ég vil nefnilega ekki byrja að drekka kaffi því ég verð svo fljótt háð því. ef ég myndi til dæmis fá mér einn drykk á morgun þá myndi ég vilja annan á föstudaginn og restin segir sig sjálf.
svo er andrea að reyna að draga mig í ræktina í skólanum sem á víst að vera orðin svo svaka fín. árskortið þar kostar sexþúsund krónur sem er ekki mikið fyrir sveltandi námsmann eins og mig. þar eru tímar og hægt að fara í tækjasal. mig langar samt líka að fara í heimsklassann með bjarna, prófa kannski í mánuð. æi ég sé til með þetta allt en þangað til þá..

góðar stundir..

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com