góð saga

|

Thursday, March 31, 2005

ég er með æðislega uppskrift að grænmetislasagne, ef einhver vill fá hana senda.

|

núna fyrir stuttu komst ég að því að önnur frænka mín er ólétt. hún er 22 ára, semsagt tveimur árum yngri en ég, og hún er búin að vera með kærastanum sínum í tæp sex ár. þegar ég komst að þessu upplifði ég mikla tilvistarangist og -kreppu samhliða því.
ég man þegar ég horfði á jón pál frænda minn þegar hann var 24 ára (þá var ég 16) og mér fannst hann svo fullorðinn. ég sé sjálfa mig alls ekki þannig núna, eins og ég sá hann þá. með kærustu (að sjálfsögðu) búinn að búa í parís og mér fannst hann bara vera allt sem 24 ára einstaklingur ætti að vera. undanfarið hafa nokkrir litlir krakkar spurt mig hvort ég sé fullorðin. þau eru greinilega í vafa eins og ég. til dæmis er það að eiga börn svo fjarri mér að ég leiði varla hugann að því. samt langar mig alveg að eignast börn, en ekki nærri strax. mér finnst ég eiga eftir að gera svo mikið áður, og það hræðir mig meira en margt annað.
svo er alltaf verið að spyrja mig í fjölskylduboðum hvort ég sé ekki komin á fast. þeim finnst ég greinilega hafa verið án kærasta í veislum allt of lengi, en ég er einmitt að fara í eina slíka á sunnudaginn þegar hann pétur frændi minn fermist, og ég er strax farin að kvíða því.
en samt þegar ég hugsa um þetta þá finnst mér ég hafa nægan tíma. nægan tíma til að finna mér mann, eignast með honum börn og steisjon bíl.

þar hafiði það. ég er í tilvistarkreppu þennan gráa rigningarmorgun..

|

Wednesday, March 30, 2005

páskafrí eru af hinu illa. ég flokka þau núna með kreditkortum og skattframtölum. ég sný alltaf sólarhringnum við og er þar af leiðandi ekkert þreytt núna og það er skóli eftir 6 tíma. ekki gott.
svo er ég ekki einu sinni kristin og borða ekki páskaegg. væri frekar til í að skipta þessum 7 dögum sem við fengum niður á árið og fá 3 langar helgar. það væri mun betra..

góða nótt.

|

Tuesday, March 29, 2005

ég get fengið fyrstu níu seríurnar af friends og groundhog day á 16 þúsund á amazon. á ég að kaupa? á ég?
er búin að vera á leiðinni að kaupa þetta svo lengi og þar sem dollarinn er svo hagstæður þá er ég að spá í að gera það bara.
eða hvað..??

|

ég er ekki að nenna í skólann á morgun. bara alls ekki. ég er ekkert búin að læra í páskafríinu, sem er slæmt. ég þarf að lesa eina bók í dag og klára ritgerð. er ég að gera það? nei ég sit og borða seríós og hangi á amazon.com að skoða dvd myndir sem mig langar að kaupa. gengur ekki lengur..

|

Monday, March 28, 2005

helgin var í einu orði sagt frábær!
það var svo gaman að ég er bara enn að jafna mig. rokkhátíðin heppnaðist mjög vel og var það mikil gleði. það sem stóð upp úr var mugison, sem var frábær, tristian, trabant og að sjálfsögðu villi valli, sem var æði og er algjör dúlla!
eftir hátíðina fórum við í partý í pólgötu hjá hauki ofurpartýhaldara og voru þar margir hæfileikaríkir og myndarlegir einstaklingar. ég þekkti eiginlega fleiri á ísafirði núna en ég geri venjulega. ekkert nema kaffibars- og sirkuslið. en það var bara gaman. klukkan fimm og tveimur rauðvínsflöskum seinna var haldið lengra niður í bæ í annað partý, sem var nú frekar súrt og fór ég fljótlega heim. katrín inga var þó lengur og spjallaði við ungan mann sem henni fannst áhugaverður.
í gær voru svo undirvatnsborðstónleikar í sundlauginni í bolungarvík þar sem múm spiluðu. tónlistin var leidd ofan í vatnið og til að heyra sem best þurftirðu að vera ofan í sundlauginni. það var víst magnað, eða það sagði katrín. ég fór ekki oní sökum slæmrar heilsu, sem ég neita að ræða frekar. ég sat bara á bakkanum og hlustaði þar, sem var flott líka.
í gær var ég svo heima og horfði á vídjó á meðan heimilisfólkið fór í sjallann. katrín kom heim klukkan tíu í morgun eftir partý á vistinni og var víst mikið stuð. ég er fegin að hafa ekki farið. eitt kvöld var alveg nóg. úff...
ég komst nú bara í smá sumarfíling á hátíðinni. það var svo gott veður og við sátum úti alveg heillengi og spjölluðum við fólk og okkur varð ekkert kalt. ég hlakka svo til sumarsins. þá fer ég að vinna á múlaborg aftur og fæ að knúsa elsku litlu börnin mín, fer og heimsæki stellu á ísafirði og svo á ég auðvitað afmæli. aldurinn verður ekki ræddur sökum tilvistarkreppu undirritaðrar.

góðar stundir..

|

hjarta mitt hoppar og hamast og er vafið inn í fíkjublöð..
ég er ástfangin

|

Saturday, March 26, 2005

jæja þá er maður komin í sæluna á ísafirði. ég held að ég vilji bara aldrei koma til baka.
er að stelast í tölvuna hjá frænku hennar katrínar, en katrín fór aðeins niður eftir til að tékka á stöðunni á hljómsveitunum. við viljum nefnilega alls ekki missa af ghostigital, tristian og hjálmum. já og auðvitað mugison. verður án ef mikið stuð.
ég efast um að ég kíki eitthvað hingað á morgun svo ég segi bara gleðilegt páskaegg vinir mínir!

kveðja að vestan..

|

Thursday, March 24, 2005

áðan hringdi mannvera hingað. mannveran var karlkyns. síminn var til mömmu. það gerist nú ekki oft hér á lynghaga, nema kannski þegar rúnar hringir. þá var þetta maður sem hún hitti í gær. já ég veit það eru allir hissa og örugglega mest ég. mamma mín, sem er búin að vera ekkja í rúm átján ár, er að fara á deit á morgun! og það með þekktum listmálara. ég er ekki alveg að ná þessu.
líst vel á kallinn að hringja bara og bjóða henni á deit. svona á að gera þetta.

en núna ætla ég að fara að pakka fyrir ferðalagið. eigiði góða helgi vinir mínir og gleðilega páska.

|

Wednesday, March 23, 2005

ísafjörður eftir tvo daga! ég get ekki beðið eftir að komast í sæluna. ekkert nema rólegheit og tónleikar með mugison, ásamt fleiri góðum. gerist verla betra..

í nótt dreymdi mig nokkrar manneskjur, og það furðulega er að þær eru allar dánar. pabbi var þarna og amma og afi á ísafirði, pabbi evu vinkonu og afi jón páll, sem dó sko ´63 og ég hef aldrei hitt. þetta var mjög skrýtinn draumur. þau voru öll svo glöð og voru að segja mér að það að deyja væri ekkert slæmt. ég hræðist reyndar ekkert að deyja, en þetta var samt svo furðulegt.
jæja.. ég er farin út að snattast með andreu og hrafntinnu.

|

Tuesday, March 22, 2005

ég er með svo skrýtinn verk í höfðinu. það er stingur aðeins fyrir ofan vinstra augað og er mjög sár. ekki gott. ég þarf víst að fara í aðra sneiðmynd, ráðlagði mamma. það var ekkert síðast þegar ég fór og því vona ég bara það besta núna.
en jæja.. vatnaliljuhittingurinn í gær var mjög skemmtilegur og vil ég hér með þakka þeim aftur fyrir komuna sem mættu. mjög skemmtilegt allt saman.
ætla að koma mér út, því ég lofaði ömmu að fara með henni í bónus og svo ætla ég að fara með andreu og hrafntinnu í góða hirðinn og gá hvort við sjáum ekki eitthvað áhugavert.

eigiði góðan dag..

|

hér getiði séð mynd af hrafntinnu litlu krúsídúllu

|

Monday, March 21, 2005

ég er döpur.
ég sakna pabba míns.

|

Sunday, March 20, 2005

ég held að ég hafi skaðað í mér bein þegar ég fór að ráðum níelsar á föstudaginn og stökk inn í garðinn á sirkus. svo er ég með skemmdar hljóðhimnur eftir að hafa hitt katrínu frænku á kaffibarnum í gær, en hún var soldið drukkin og öskraði upp í eyrun á mér. hún hélt sko að hún væri að tala, en nærstaddir (ég) heyrðu bara hávaða.
annars var þetta góð helgi. fór í pottinn hjá karól í gær með henni og maju og svo í partý á klapparstíg. kom í ljós að gestgjafinn er frá ísafirði og gátum við spjallað heilmikið og hlakka ég nú enn meira til næstu helgar. er búin að redda gistingu, alveg niðri í bæ, sem er ljúft.
ætla að fara og horfa á restina af nágrönnum og njóta síðustu klukkutímanna áður en ég þarf að fara á mokka.

eigiði góðan sunnudag..

|

Saturday, March 19, 2005

var að koma heim. mér finnst alltaf jafn gaman að skrifa eitthvað þegar ég er að koma heim. er alltaf alveg heillengi að skrifa einn póst því ég þarf að leiðrétta svo mikið.
annars var þetta mjög skemmtilegt kvöld. maja, karól og katrín inga komu hingað til mín og við fengum okkur bjór og fórum svo á kaffibarinn. ákváðum svo að fara á sirkus en það var svo löng röð að við nenntum ekki og snerum því við. þá sáum við níels kórfélaga þar sem hann sat oná sirkus. þá hafði einhver reist stiga í sundinu svo við fórum þar inn með hjálp níelsar. hann tók á móti okkur þegar við stukkum niður og lyftist pilsið mitt svo hátt að ég held að hann hafi barasta séð allt! hann sagðist hafa lokað augunum. (þessa línu tók ég út þegar ég vaknaði sökum þess að hún var asnaleg)
jæja ég er farin að sofa svo ég verði hress fyrir pottapartýið annað kvöld hjá karól.
góða nótt yndislega fólk sem les þessa síðu..

|

Friday, March 18, 2005

gleði gleði..

ég er komin í páskafrí! það þykir mér ekki leiðinlegt. þarf ekki að mæta í skólann í ellefu daga. og ég er líka glöð því ég er að lita á mér hárið. ákvað nefnilega um daginn að taka dökka litinn úr og vera með aðeins ljósara, en það fór ekki betur en svo, að ég varð rauðhærð. sem mér finnst reyndar mjög flott, en það fer mér hræðilega.
ætla að djamma í kvöld þar sem ég þarf ekki að vinna á morgun. meiri gleði! planið er að kíkja út með maju og hitta einhverja breta og sýna þeim djammið á íslandi eða fara á frumsýningu á teiknimynd með katrínu frænku minni.
svo er það ísafjörður eftir viku. enn meiri gleði! ég get sko ekki beðið..

góða helgi lömbin mín.. þið eruð alltaf jafn sæt.

|

Thursday, March 17, 2005

ég sit við tölvuna og horfi út um gluggann og sé ekkert nema hvítt. veit almættið ekki að vorið hefst á mánudaginn?? alla vega er brjálað veður hér í reykjavík 107 og þegar ég horfi út á ægisíðu þá sé ég ekki einu sinni niður í fjöru. svo slæmt er skyggnið..
ég ætla að kvarta. finnst þetta ekki eiga við í mars og bara vera alls kostar rangt að demba þessu svona á okkur. ég sem er að fara oní bæ á morgun með maju og bretum. þeir mega ekki halda að ísland sé svona grátt og yfir höfuð viðbjóður, og það sem verra er, ef þetta heldur svona áfram þá lítur út fyrir að ég geti ekki keyrt vestur. er að skoða síðuna hjá vegagerðinni og það eru hálkublettir frá reykjavík og alveg upp í borgarfjörð, eitthvað smá í djúpinu og á heiðinni. það finnst mér miður. er reyndar ekki búin að redda gistingu en það verður ekkert mál. ég tjalda bara upp á dal ef það verður eitthvað vesin. en þar sem ég á svo frábæra fjölskyldu að þá reddast það ábyggilega.

jæja ég er að hugsa um að kíkja í sund þrátt fyrir grámann og mygluna. aðeins að hressa mig við áður en ég þarf að skrölta á mokka og gera kaffi og vöfflur þangað til að ég æli..

þetta var neikvæður póstur fimmtudagsins 17. mars.. næsti verður mun jákvæðari því þá verður föstudagur og ég verð komin í páskafrí.

stundir..

|

Wednesday, March 16, 2005

ég var að kaupa soldið sniðugt

|

Tuesday, March 15, 2005

fór í sund áðan. í laugardalslaugina. hún var pökkuð af unglingum, á að giska fjórtán ára. þau voru öll að tala um nýja símann sinn og fartölvuna sem pabbi keypti handa þeim og nýja ipodinn og bara nefndu það.
svo ég fór að hugsa um það þegar ég var fjórtán ára, fyrir tíu árum síðan(!!) og hvað ég er fegin að hafa verið unglingur þá en ekki í dag. þá var allt einhvern veginn miklu auðveldara. eða það var kannski ekkert auðvelt, en ég get ekki ímyndað mér hvernig það er í dag. þá var ekkert internet, engir farsímar og ekki allur þessi hraði sem einkennir þjóðfélagið í dag.
ég held að á vissan hátt hafi það mótað mig að stóru leyti að þetta var ekki til þá. mamma var auðvitað alltaf ein með okkur og enginn pabbi til staðar, ekki einu sinni til að taka okkur aðra hvora helgi, svo hún þurfti bara að sjá um hlutina og ég held að hún hafi bara staðið sig andskoti vel. við gátum aldrei farið til útlanda eða á leikjanámskeið og lærðum því fljótt gildi peninga og að maður fær ekki alltaf það sem maður vill. ef mamma sagðist ekki hafa efni á því, þá var það bara þannig og ekkert þörf á að ræða það neitt frekar.
í dag finnst mér allt vera öðruvísi. maður fer í búð og sér pirraða foreldra, þreytta að koma úr vinnunni að reyna að hafa hemil á börnunum, sem eru líka dauðþreytt, og endar það yfirleitt þannig að foreldrið kaupir sér frið með nammi eða einhverju álíka. sem er mjög skiljanlegt. ég dæmi engan fyrir að nenna ekki að hlusta á grenjandi barn eftir langan og kannski erfiðan vinnudag. en mér finnst samt svo leiðinlegt að þetta skuli vera svona. að til að fólk geti látið enda ná saman þá þurfi báðir að vinna fullan vinnudag og börnin á leikskólanum allan daginn. en það er auðvitað ekkert málið hjá öllum, mjög margir kjósa að vinna mikið og því miður eru það þá oftast börnin sem finna fyrir því. og kannski voða lítið hægt að gera, nema þá kannski að bæta kerfið og hjálpa barnafjölskyldum meira, en það er mál sem ég nenni ekki að fara út í hérna.

jæja best að fara að lesa eins og eina bók eftir einar má.

góða nótt vinir mínir..

|

mmm ég eldaði svo gott áðan. keypti lítið laxaflak og kryddaði með salti, sítrónupipar og smá pipar, vafði því í álpappír, setti það í eldfast mót og inn í ofn í svona korter. sauð líka kartöflur og gerði salat. útkoman var alveg æðisleg. ég verð að gera þetta oftar.

|

fór og sótti filmur í framköllun áðan. ég er greinlega ekki nógu dugleg að taka myndir. þetta voru þrjár filmur og elstu myndirnar voru síðan ég fór í bústað með nokkrum vinum mínum í október 2003. ég verð greinilega að fara að bæta mig í þessu.
og þar sem ég er ekki enn orðin svo tæknileg að eiga stafræna myndavél þá verða þeir sem vilja skoða bara að koma í heimsókn.
en ég er farin í sund á meðan sólar nýtur ennþá við..

veriði stillt börnin mín..

|

Monday, March 14, 2005

ég er að spá í að keyra í minn heimabæ um páskana og fara á rokkhátíð alþýðunnar, aldrei fór ég suður. færðin er góð, miðað við árstíma, og held ég að það verði mjög gaman.
gott að komast aðeins burt frá reykjavík og öllu því bulli og rugli sem er í gangi þar.

|

Sunday, March 13, 2005

var að koma heim. djammið var nú ekki upp á marga fiska.
ég er svo brjáluð að ég gæti drepið einhvern!!!!!
þar hafiði það. nokkrir atburðir í röð sem gerðu mig alveg band brjál..
eins og ég er nú alltaf geðgóð.
vill einhver koma með mér á hide´n seek?? þori ekki ein..
eða vill einhver bara koma til mín og liggja hjá mér?
höndla ekki tilveruna ein akkúrat núna...

|

Saturday, March 12, 2005

fór í bæinn áðan. kíkti í spútnik. váváVÁ hvað var margt flott þar. ohh ég missti mig alveg, mátaði og mátaði.. endaði á að kaupa tvær peysur og pils. keypti mér líka eyrnalokka og disk með elliott smith, sem ég elska.
í kvöld er ég svo boðin í afmæli til maju. ætlum að drekka rauðvín, hlusta á góða tónlist og kíkja svo í bæinn. förinni er heitið á sirkus og kaffibarinn.
þetta var rapport dagsins.

eigiði gott laugardagskvöld litlu börn..

|

rakst á gamlar myndir frá kórárshátíðinni 2004 á síðunni hennar ragnheiðar.
ég held að ég geti bara ekki myndast vel. það er alveg sama hvert tilefnið er, hver tekur myndina eða hversu fín ég er.. alltaf tekst mér að vera með einhvern asnalegan svip eða að brosa of mikið.
já eða með zoolander svip..
svo er ein af mér og bjarna.. ég er ekki alveg að fatta svipinn á honum. hmm....

|

Friday, March 11, 2005

idol í kvöld.
get ekki sagt að ég sé að deyja úr spenningi. mér finnst svo augljóst hver á eftir að vinna. alla vega ef ég dæmi af fyrri flutningum, þá hugsa ég að hildur vala vinni.
en mér er svosem sama. vil frekar sjá heiðu vinna því ég heyrði um daginn að hildur hefði sagt að hún vildi ekki vinna. hvað er hún þá að fara í þessa keppni? ég vorkenndi svo davíð síðasta föstudag, því hann hefði alveg getað unnið þetta ef hann hefði ekki farið í þennan hlaupatúr upp til áhorfenda. flott falsetta og allt, en því miður ekki nóg. hann kom mér á óvart. þoldi hann nefnilega ekki fyrst eftir að hann gerði þetta "whatever" og einhverjar gelgjuhreyfingar með puttunum eftir dóm frá þorvaldi. þoli ekki hroka! alveg megaturnoff..
jæja.. nóg um idol. ég er farin til andreu og hrafntinnu að knúsa..

góða helgi vinir mínir..

|

Thursday, March 10, 2005

enn ein vaktin liðin á mokka.
sykurskrímslin sóttu staðinn í sögulegu lágmarki og vil ég þakka músíktilraunum það. ljúft með eindæmum..
og jón sjarmör kom.. loksins! og var það einungis til að auka gleðina. það eru ekki allir eins æðislegir kúnnar og hann ónei, en hann kemur alltaf með bollann og öskubakkann til okkar þegar hann fer og í kvöld setti hann meira að segja sjálfur nýjan öskubakka á borðið. bara sjarmör!
svo kom auðvitað fýlukall.. engin vakt án þeirra. kom og bað um ábót. ég sagði að það væri ekki ábót. "ha er ekki ábót? en ég borgaði svo mikið" frussaði hann þá út úr sér og muldraði eitthvað í barminn.. ég nennti ekki að standa í því svo ég gaf honum hálfan af svörtu í viðbót. "doesn´t she have a beautiful smile?" sagði hann þá við kínverska manninn sem var með honum. "hann er sko sendiherra"
vá merkilegt. drekktu bara kaffið þitt og farðu út! hata svona kalla.
svo komu nokkrir krakkar inn og voru að sjálfsögðu með læti OG helltu niður fullt af sykri sem ég var nýbúin að fylla á. hvað er málið með þessa áráttu unglinga á sykur? geta þau ekki bara setið og spjallað og haft hendur í skauti sér? fuss!!
svo var ég að taka af borðinu við hliðina og þá heyrði ég eina stelpuna segja "hvað finnst ykkur um reykingabannið á kaffihúsum?" "mér finnst það glatað" sagði þá einn gaurinn. "þúst ég meina þetta er bara eins og prumpa. það er ógeðslegt en það á samt ekkert að banna það"
jahá.. þvílíkt gáfumenni þarna á ferð.

góða nótt sykurpúðar..

|

ég er þreytt. svo þreytt.
orkan í gærkvöldi virkaði ekki sem skyldi. ég vaknaði klukkan hálffimm í morgun, uppi í stofu með bókina ofan á mér.. ekki búin með einn tíunda af henni. ætla að hringja upp í egil skallgrímsson og segja þeim að orkan þeirra virki ekki baun. svo nennti ég ekki niður að sofa og fór því bara inn í tölvuherbergi og svaf þar.
mamma hefur verið að ræða það við mig undanfarið hvort ég vilji ekki koma upp í herbergi, svo hún geti leigt út mitt. get ekki sagt að ég sé spennt. hata að vera í herbergi á hæðinni. kjallarinn og ég erum eitt! það myndi þýða ekki fleiri bjórdrykkjukvöld í yndislega herberginu mínu með gulllitaða ofninum sem ég elska.
ætla að fara heim á eftir og liggja í bælinu þangað til að ég þarf að fara á mokka og afgreiða kaffiþyrsta unglinga, sem eru á allan hátt pirrandi og sulla niður sykri..

eigiði góðan dag börnin mín..

|

Wednesday, March 09, 2005

jæææja..
er fólk ekki hresst eftir annasaman dag? ég er alla vega orðin soldið stirð í puttunum eftir allt pikkið. og líka á msn. komu sko margir og töluðu við mig þar í dag.. úff púff!
ég er með þvílíkan hausverk. spennufall held ég. var ansi (lesist mikið) pirruð í dag!
og ég sem þurfti að lesa heila bók á ensku, sem er mjög seinlesin, og ég er bara búin með 10 blaðsíður eða eitthvað. ekki gott..
er þess vegna að spá í að fara út í búð og kaupa mér orku og nammi. gult strumpaópal og bland í poka..

góða nótt lömbin mín.. og muniði svo að elska hvert annað eins mikið og ég elska ykkur.

|

Tuesday, March 08, 2005

í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og V-dagurinn, en V-dagssamtökin berjast fyrir ofbeldi á konum út um allan heim. af því tilefni verður heilmikil dagskrá í íslensku óperunni í kvöld þar sem meðal annars mætir eve ensler, sem skrifaði píkusögur. ég veit ekki hvort einhver sá það, en það var einmitt heimildarmynd um hana á sunnudagskvöldið á rúv (sem ég því miður missti af vegna þess að ég var að vinna) sem var frá því að hún fór til afríku og kom upp skjóli fyrir ungar stúlkur sem höfðu ekki í nein hús að venda. þær höfðu ekki viljað láta umskera sig og höfðu því flúið frá fjölskyldu sinni eða verið útskúfaðar. þetta finnst mér mjög merkilegt málefni og ég hvet fólk til að kíkja. ég ætla að fara með henni maju núna á súfistann og kíkja svo í óperuna..

stundir..

|

ég fór í eymundsson í kringlunni áðan og keypti mér bók. svo til að drepa tímann ákvað ég að rölta aðeins um og skoða í búðir. STÓR mistök það!
ég hef ekki lent í því lengi að sjá svona margt flott sem mig langaði í. sá geðveika skó í bossanova, þeir voru hvítir, flatbotna með blómum. vává!! sá líka geggjað pils í centrum. gerði svo stærstu mistökin og fór í spútnik. þar hefði ég getað verslað og mátað í allan dag. pils, jakka, boli, kjóla, peysur, buxur.. grenj!
mig langar í svona mann eins og richard gere í pretty woman og ég er julia og við förum og verslum föt allan daginn. nema að ég myndi vilja sleppa gleðikonutitlinum.
til að láta mér líða betur fór ég og keypti kúluís með kappútsjínóbragði. alltaf gott.

það var hár í ísnum..

|

Monday, March 07, 2005

eitt sem mér finnst skrýtið..

..er þegar fólk talar um að daginn sé farið að lengja. maður heyrir þetta alltaf sagt á þessum árstíma, en mér finnst svo asnalegt að segja það. hann verður ekkert lengri þegar vora tekur, heldur breytist bara gangur sólarinnar og hún fer að skína lengur. dagurinn er samt sem áður búinn klukkan átján eins og vanalega.
þessi hugsun var í boði mánudagsins sjöunda mars, sem er einmitt yndislegur að því leyti að þegar ég vaknaði klukkan korter í átta, þá var orðið bjart.

eigiði góðan dag elskurnar..

|

Sunday, March 06, 2005

mokka kl 20:44

mér leiðist. það er búið að vera lítið að gera og er ég búin að þrífa slotið hátt og lágt.. ókei kannski ekki hátt og lágt.. en ég er búin að skúra, þrífa grillið, vöfflujárnið og kaffivélina.
það kemur aldrei neinn sem ég þekki hingað (eða allavega sjaldan) og það finnst mér miður. reyndar sátu hulda og ingunn hér alveg til að verða hálf átta, svo ég fékk smá félagsskap.
áðan kom útlenskt par hingað og var ég þeirra persónulegi leiðsögumaður.. á korti. þau vildu fá að vita hvar væri gott að borða og hvar væri besta sundlaugin o.s.frv. þau voru svo sæt og ástfangin. mig langar að vera ástfangin. þetta er einmitt tíminn til þess. sólin farin að skína lengur, fuglarnir farnir að syngja, blómin byrjuð að kíkja upp og trén að byrja að laufgast.. hilda kom einmitt hérna í gær, þegar ég var að vinna, með kærastanum sínum og höfðu þau bara verið að rölta í bænum og skoða í búðir og svona.. mig langar líka!
en jæja það þýðir víst ekkert að væla um það.
svo situr fríða frammi núna, en fyrir ykkur sem þekkið ekki til þá er hún fastakúnni hér og er með kleptómaníu. hún kemur mjög oft og spyr hvort hún megi skrifa (þó svo að hún viti alveg að það er bannað) því hún hafi gleymt að fara í bankann eða biður mann að athuga hvort það sé eitthvað inni á kortinu áður en hún verslar. stundum kemur hún að borðinu og pantar kaffi og segist svo ætla að sækja pening í veskið sitt, þannig að maður bíður og svo kemur hún ekkert. reynir svo iðulega að lauma sér út án þess að borga. svo situr hún bara og mænir út í loftið. hún minnir mig á týpuna sem angelina jolie lék í girl interrupted. alveg biluð sko..
líður ykkur ekki betur að vita þetta um hana fríðu?
jæja, ég ætla að fara og skoða lesbókina.

bless í bili.

ps. ingunn, ein leið til að fá sómasamlegt kaffi úr fallegu kaffivélinni okkar er að nota bara einfalda stútinn. froðan verður mun skárri og fallegri á litinn. hinir tveir eru bara ógeðslegir og ekkert góðir til kaffibrúks..
og hey.. hvar eru jón sjarmör og gylfi gísla? að ég tali nú ekki um benza.. hef ekki séð þá alveg heillengi.

|

ég er þunn!
ég sem verð eiginlega aldrei þunn. mér er meira að segja flökurt. ojoj ekki gott.
og ég þarf að fara að vinna núna klukkan sex og er SVO ekki að nenna því. og ég verð ein, eins og vanalega og tíminn er svo lengi að líða.. ohhhh....
ég ætla að hætta þessu kvarti. það var mjög gaman í gær. ég drakk kannski aðeins of marga bjóra, en svona er það þegar maður þarf ekki að borga fyrir þá sjálfur.. alls ekki gott..
fórum á sirkus og vorum þar nánast allt kvöldið. mjög gaman. hitti guggu andreusystur og einnig gulla bróður þeirra. fórum svo á celtic í smá stund og einnig á ellefuna. þegar ljósin voru kveikt þar, var kominn tími til að halda heim á leið. fórum samt fyrst á devitos (í annað skiptið um kvöldið tek ég fram) oj ég er svo mikill hákur. gæti borðað pizzu í öll mál..
jæja! er farin í sund og svo á mokka.

vonandi eigiði gott sunnudagskvöld..

|

Saturday, March 05, 2005

ég er svo glöð! ég fann ágætis byrjun í gær, með sigurrós. ég hélt að hann væri týndur að eilífu því ég var búin að gera dauðaleit að honum, en þá var hann hjá systu. vá hvað ég var glöð! er að hlusta á hann núna og fyllast vellíðunartilfinningu sem bara þessi hljómsveit getur veitt manni. snilld!
annars er þetta búinn að vera ágætur dagur í dag. var á mokka frá tólf og var að koma heim. mjög mikið að gera og vöfflu- og samlokugeðveiki! gott að vera komin heim.
í kvöld ætla ég að kíkja út með henni maju og er planið að fara á sirkus.
núna ætla ég að fara og fá mér bjór og fara svo í sturtu.

góðar stundir..

|

Friday, March 04, 2005

djöfull getur sumt fólk verið leiðinlegt!!
og það sem pirrar mig er að ég læt það fara í taugarnar á mér!
arg!

|

ég er pirruð!
fer ekkert nánar út í það hér.

|

Wednesday, March 02, 2005

hvað segiði sykurpúðarnir mínir? ég er ekki of hress í dag þar sem ég er ekki enn búin að fá útborgað, en hún guðný gleymdi mér í gær þegar hún borgaði út. svo ég hringdi í morgun og hún sagðist ætla að redda því, en hún er ekki enn búin að því.
svo ég er pirruð.
og bíllinn minn er bensínlaus úti í innkeyrslu, drap á sér í miðju bakki í morgun. hann er með afturdekkin úti á götu og framhlutann þvert yfir gangstéttina. frábært! og fólk hefur verið að taka sveig framhjá honum í dag, lítandi upp að húsinu og labbar svo fussandi í burtu. ég gelti að tveimur fínum frúm í dag og þá hrökkluðust þær burt..
bensín og peningaleysið varð þess valdandi að ég komst hvorki lönd né strönd og missti því af þjóðleikhúsinu. grenj! sem mér fannst ógeðslega leiðinlegt því ég hefði viljað fara þangað og sjá hvernig þetta virkar allt saman.
ég hefði kannski sosum getað labbað...
en jæja..þýðir ekki að væla yfir því.. og ég hef nú farið í borgarleikhúsið svo þetta var ekki alslæmt.
en samt! .. ég vil fá peninginn minn og fara á pizza pronto og fá mér pizzu.

mig langar í bjór...

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com