góð saga

|

Tuesday, August 26, 2008

ja svei mér þá ef það er ekki bara komið haust. komið haust og ágúst ekki ennþá liðinn! ég sver það ef það kemur aftur svona lægðaalda yfir landið eins og fyrir ári þá flyt ég og kem aldrei aftur! ég eyðilagði tvenn pör af skóm í þessu ógeðis veðri sem einkenndi ísland frá 3. september fram til loka nóvember og fékk alveg nóg..

að öðru..

margt hefur verið brallað undafarnar vikur og ber þar helst að nefna tvö brúðkaup þar sem fegurðin réði ríkjum.. það voru þær hildur og sandra sem opinberlega urðu danskar. þær giftust þó ekki hvorri annarri.. hohoho neinei, troels og sören voru þeir sem gengu að eiga þær og eru þeir báðir mætamenn. ég er með svefngalsa.. er á næturvakt og mjög þreytt. alla vega.. ég ætla að setja inn myndir bráðum en bara á fésbókina góðu svo ef þið eruð ekki með hana þá er það ykkar missir. þetta eru nefnilega fantafínar myndir sem ég tók..

bless

|

Wednesday, August 13, 2008

síðasta hálftímann eða svo hefur mér verið haldið í gíslingu. ég sat hér í mestu makindum á næturvaktinni þegar ógeðis geitungur flaug allt í einu upp frá skrifborðinu, eða fyrir aftan það. hann hefur líklega legið þar í leyni bölvaður, beðið færis til að stinga mig. ég rauk að sjálfsögðu upp frá borðinu og náði í glas fram í eldhús til að fanga meindýrið. þegar ég var við það að ná honum þá kom annar! og það um miðja nótt.. eiga þeir ekki að vera sofandi þessi ógeðslegustu dýr jarðar?! alla vega.. þeir sveimuðu þarna tveir með mig skíthrædda í dyrunum, bíðandi eftir að þeir færu út um gluggann en nei. þeir sátu (eða flugu) sem fastast og aðallega út um alla skrifstofu. allt í einu hvarf annar og ég hafði bara hinn í augsýn. ákvað þá að prufa að slökkva ljósið til að athuga hvort hann færi í lampaljósið (sem ég hélt að væri kveikt á) en það var víst ekki svo ég kveikti aftur. um leið og ljósið kom á var ég með helvítið nánast í andlitinu á mér. þá leitaði hann að sjálfsögðu fram þar sem ég stóð og stökk ég þá af stað með svo miklum látum að ég braut gardínustöng sem ég var með í hendinni, en hún var notuð til að stugga við kvikindinu. djöfulsins viðbjóður og ógeð! afsakið orðbragðið..
ég náði að klófesta annan og er hann hér í glasi við hliðina á mér en hinn er horfinn og ég get varla andað rólega þegar ég veit að hann er hér í húsinu.. ætla eina ferð fram með glas og umslag og vita hvort ég finni ekki geitmund.. framhald seinna..

uppfært kl. 05..

ég náði hinum líka. það tók hálftíma frá því að ég fann hann aftur. þetta er nú meira ógeðið.. einu dýrin sem ég drep með góðri samvisku. get aldrei drepið nein svona lítil dýr sem ég finn inni hjá mér. sleppi þeim alltaf.. nema geitungum. þeir eru réttdræpir. sem betur fer hef ég lítið orðið vör við þá í sumar þökk sé karólínu könguló sem er með svo stóran vef við eldhúsgluggann okkar að ekkert skordýr hefur komist inn um hann. ég er henni mjög þakklát og gaf henni meira að segja fiðrildi um daginn sem ég fann dautt inni hjá okkur. það ættu allir að hafa eins og eina karólínu í sínu lífi...

|

Tuesday, August 12, 2008

ég er nú meiri aumingjavefdagbókarhaldarinn.. jahérnahér. lítill fugl hvíslaði því meira að segja að mér að fólk væri hætt að kíkja hingað inn í von um eitthvað bitastætt. en nú verður breyting þar á.. ójá! ..eða ég vona það. ég hugsa að það verði nú samt eitthvað örlítið meira um færslur því ég er að fara í próf 22. ágúst og eins og allir vita þá er aðaltími færslna þegar fólk á að vera að gera eitthvað allt annað en hanga á veraldarvefnum.
annars er bara gott að frétta.. sumarfríinu mínu er formlega lokið þar sem ég skrifa þessi orð á næturvakt. þetta var án efa besta sumarfrí hingað til. parið brallaði margt skemmtilegt og verða settar inn myndir fljótlega því til sönnunar. það er þó hægt að sjá smá sýnishorn á síðu betri helmingsins sem er hérna.

ég er þá farin að lesa brag og ljóðstíl..

góðar stundir

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com